Góður árangur af síðdegisopnun í leghálsskimanir

Mynd af frétt Góður árangur af síðdegisopnun í leghálsskimanir
10.12.2024

Tilraunaverkefni þar sem boðið var upp á opna tíma í leghálsskimanir á fimm heilsugæslustöðvum milli klukkan 15 og 17 skilaði góðum árangri og náði vel til kvenna af erlendum uppruna.

„Það hefur hingað til gengið verr að fá erlendar konur til að koma í skimun fyrir leghálskrabbameini svo það er afar ánægjulegt að þessi tilraun skuli hafa virkað jafn vel og raun ber vitni,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í tilraunaskyni var boðið upp á opna tíma í leghálsskimun sem ekki þurfti að bóka fyrirfram á fimm heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Opna húsið var alla fimmtudaga frá 17. október til 21. nóvember, milli klukkan 15 og 17. Markmiðið með tilraunaverkefninu var að kanna hvort þetta fyrirkomulag gæti auðveldað erlendum konum að koma í skimun, en hugmyndin kom frá fulltrúum erlendra kvenna hér á landi.

Samantekt á komum í opna húsið sýnir að alls um 61 prósent þeirra sem nýttu sér opnu tímana voru erlendrar konur. Hlutfallið var hærra á sumum heilsugæslustöðvanna, hæst um 80 prósent. Á sama tímabili voru erlendar konur aðeins tæpur þriðjungur þeirra sem komu í leghálsskimun á dagvinnutíma.

Heimilt að skreppa úr vinnu í skimun

„Þetta bendir eindregið til þess að þetta fyrirkomulag gæti hentað erlendum konum vel. Við munum þess vegna halda áfram að bjóða upp á síðdegisopnun í leghálsskimanir eftir áramót, en eigum eftir að útfæra fyrirkomulagið nánar,“ segir Ágúst.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarið verið í átaki til að kynna krabbameinsskimanir fyrir konum, með sérstaka áherslu á erlendar konur. Eitt af því sem þar hefur verið haldið á lofti er réttur fólks til að skreppa úr vinnu til að fara í skimun.