Síðdegisopnun í leghálsskimanir á heilsugæslustöðvum

Mynd af frétt Síðdegisopnun í leghálsskimanir á heilsugæslustöðvum
03.02.2025
Tilraunaverkefni þar sem boðið var upp á opna tíma síðdegis fyrir leghálssýnatökur á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu gekk afar vel og hefur verið ákveðið að bjóða áfram upp á þessa þjónustu. Konur sem fengið hafa boð í skimun geta komið í opna tíma án þess að bóka fyrir fram.

Boðið verður upp á síðdegistíma milli klukkan 15 og 17 á ákveðnum dögum sem ekki þarf að bóka á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Upplýsingar um hvar og hvenær opnu tímarnir eru í boði má finna á vefnum skimanir.is.

Konur fá boð frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana þegar kominn er tími á nýja sýnatöku. Þær sem kjósa geta mætt þegar síðdegisopnun er á þeirri heilsugæslustöð sem hentar best. Þær geta líka bókað tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuveru eða með símtali við sína heilsugæslustöð.

Á heilsugæslustöðvum framkvæma ljósmæður eða hjúkrunarfræðingar skimunina, sem tekur aðeins örfáar mínútur. Kostnaður við skimunina er aðeins 500 krónur.

Erlendar konur nýta opna tíma vel

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvað þessi tilraun hefur gengið vel. Nú höldum við ótrauð áfram að bjóða upp á þessa þjónustu, enda hefur það sýnt sig að það hentar sumum konum mjög vel að koma seinnipart dags án þess að bóka,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

„Sérstaklega hafa konur af erlendum uppruna nýtt sér þennan möguleika frekar en að panta tíma og það er gott að geta komið til móts við þann hóp og aukið þátttöku þeirra í skimunum,“ segir Ágúst.

Mikill ávinningur af skimun

Konur á aldrinum 23 til 64 ára fá reglulega boðsbréf frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana um að koma í leghálsskimun. Skimun fyrir leghálskrabbameini hefur mikinn ávinning í för með sér fyrir konur. Líkurnar á því að fá leghálskrabbamein minnka um 90 prósent hjá konum sem mæta reglulega í skimun.