Tækifæri til að efla misskilda snillinga

Mynd af frétt Tækifæri til að efla misskilda snillinga
04.02.2025
„ADHD er alltaf mjög áhugavert viðfangsefni og krakkar með ADHD eru skemmtilegustu krakkarnir en þau eru oft misskilin,“ segir Dagmar Kr. Hannesdóttir, lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún stýrir rannsókn sem hófst nú í janúar á Geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og miðar að því að meta áhrif hópnámskeiða og einstaklingsráðgjafar fyrir börn með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD).

Dagmar hefur unnið að því að þróa úrræði fyrir börn með ADHD í meira en áratug, eins og fram kemur í viðtali við hana á vef Háskóla Íslands, þar sem nánar er fjallað um verkefnið. 

Í rannsókninni verður boðið upp á tvenns konar úrræði fyrir krakka með ADHD á aldrinum 9-12 ára. Þrjátíu krakkar taka þátt í rannsókninni og verður þeim skipt af handahófi annars vegar á hópnámskeið og hins vegar í einstaklingsráðgjöf. Meistaranemar í klínískri barnasálfræði úr HÍ munu stýra báðum úrræðunum.

Snillinganámskeið og Krakkaráðgjöf

Hópnámskeiðin eru kölluð Snillinganámskeið og geta sex börn setið námskeiðið í einu. Á námskeiðinu fá börnin þjálfun í tilfinningastjórnun, samskiptum, lausnaleit og sjálfstjórn. „Krakkarnir fá möppu sem heitir Snillingarnir þar sem þau vinna alls konar verkefni. Sum þeirra eru spil eða hlutverkaleikir þar sem þau eru að æfa sig í ákveðnum viðbrögðum. Við reynum að setja alla þessa fræðslu í skemmtilegan búning þar sem þau eru aktív. Ekki bara að sitja og meðtaka eitthvað uppi á töflu. Svo er náttúrulega líka mikið af umræðum í hópnum,“ segir Dagmar.

Samhliða Snillinganámskeiðunum hófst einstaklingsráðgjöfin. Hún kallast Krakkaráðgjöf og taka tólf krakkar þátt í henni. Þau munu hitta sérfræðing einu sinni í viku í fimm vikur í senn og fá fræðslu. Dagmar segir Krakkaráðgjöfina hafa svipað innihald og Snillinganámskeiðin. Krakkarnir fái bók með dagskrá sem þau fylgi. Þau læri að breyta skipulaginu hjá sér, til dæmis hvernig eigi að taka til í herberginu eða að hætta að gleyma alltaf sunddótinu eða sparinestinu.

Úrræðin borin saman

Í rannsókn Dagmarar verða úrræðin tvö borin saman. „Það er annars vegar að fá þessa fræðslu og þjálfun í krakkahópi þar sem þau fá að heyra hvað hinir krakkarnir segja og æfa sig saman í aðstæðunum. Hins vegar fá krakkar fræðslu frá fagaðila einir og sér, í meira næði en þá ná þeir betri einbeitingu. Við erum að bera þessi inngrip saman og sjá hvað hentar hverjum best,“ segir hún. Þá verður samanburðarhópur sem ekki tekur þátt einnig skoðaður á sama tíma.

Nánar er fjallað um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.