Stormur sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið hefur áhrif á starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Lágmarksmönnun verður á heilsugæslustöðvum og í heimahjúkrun til að tryggja öryggi starfsfólks.
Viðbúið er að þjónusta Heimahjúkrunar skerðist vegna veðursins, en rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið. Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sinnir vitjunum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Hópur starfsfólks mun sinna vitjunum sem ekki mega bíða í kvöld og í fyrramálið þrátt fyrir veður. Þó er viðbúið að tímasetningar heimsókna raskist vegna veðurs og álags á þá starfsmenn sem verða að störfum.
Heilsugæslan biður aðstandendur að vera í sambandi við fólk sem fær þjónustu Heimahjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og láta það vita að tímasetning þjónustunnar gæti orðið önnur en til stóð.