Tímamót í Römpum upp Ísland í Mjóddinni

Mynd af frétt Tímamót í Römpum upp Ísland í Mjóddinni
21.11.2022

Góðum áfanga í átakinu Römpum upp Ísland var fagnað í Mjóddinni í dag þegar rampur númer 300 var vígður. Bæði Heilsugæslan Mjódd og skrifstofa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) eru staðsettar í Mjóddinni ásamt öðrum starfseiningum heilsugæslunnar.

Undanfarna daga hefur verið unnið að því að bæta aðgengi fólks í hjólastól að þjónustu og verslunum í Mjóddinni. Ekki þurfti að bæta aðkomu að skrifstofu HH en lagður var rampur við innganginn í Heilsugæsluna Mjódd.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull verkefnisins, komu í Mjóddina til að fagna því að 300 rampar hafi nú verið byggðir. 

Upphaflega stóð til að byggja 1.000 rampa en með smá leikþætti þar sem forseti Íslands mundaði spreybrúsann á sviðinu var tilkynnt að nú standi til að ramparnir verði 1.500 talsins á næstu fjórum árum.

Ryðjum burtu hindrunum

„Fólk vill hafa rampinn fyrir framan sig,“ sagði Guðni, og sagði það mögulega nýtt orðatiltæki sem mætti nýta í stað þess að tala um að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hann benti á þá staðreynd að sumt fólk sé í þeirri stöðu þegar til standi að fara út að þurfa að velta fyrir sér aðgengi að áfangastað áður en lagt sé af stað. Þetta átak sé liður í að draga úr þeim vanda enda mikilvægt að fólk geti komist klakklaust á milli staða.

Verkefnið snýst um meira heldur en bara rampana sem eru byggðir, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við athöfnina. „Þetta snýst líka um að vekja athygli á því að það eru ýmsar hindranir, bæði áþreifanlegar og óáþreifanlegar,“ sagði hún. Þeim hindrunum þurfi að ryðja burtu sem fyrst til að bæta líf fólksins í landinu.