Þótt góður árangur hafi náðst í baráttunni við COVID-19 hérlendis sýna ný smit undanfarið að ekki má sofna á verðinum. Rifjum upp hvernig er best að haga sér til að passa upp á persónulegar smitvarnir.
Handþvottur er enn besta smitvörnin
- Þvoum hendur reglulega yfir daginn og sprittum þegar ekki eru aðstæður til handþvotta.
- Þvoum hendur eftir ferðir á salerni.
- Þvoum hendur áður en við matbúum eða borðum.
- Þvoum hendur þegar við komum heim.
- Þvoum hendur eftir að hafa farið í verslun eða á aðra staði þar sem eru sameiginlegir snertifletir.
Handsprittun er svo viðbót við handþvott eða þegar ekki er aðstaða til handþvottar. Upplagt er að hafa handspritt í bílnum og í bakpokanum á ferðum okkar um landið.
Snerting og fjarlægð
Snerting við annað fólk er mikilvæg og bætir heilsu. Meðan ástandið er svona þurfum við samt að taka hlé frá því að snerta aðra en okkar nánustu. Hægt er að láta í ljós væntumþykju og gleði yfir að hitta einhvern með öðrum hætti.
Nú er best að láta sér nægja að brosa, veifa, leggja lófa í hjartastað, gera loftfimmu eða nota aðrar sniðugar lausnir sem geta verið uppspretta hláturs sem er líka heilsubót.
Virðum það að enn eru margir sem vilja halda í tveggja metra regluna vegna eigin heilsu. Förum eftir merkingum í verslunum og á öðrum stöðum þar sem þjónusta er veitt og pössum líka að halda hæfilegri fjarlægð frá fólki í þjónustustörfum.
Þó að þeir sem koma til landsins fái neikvætt svar úr sýnatöku, er ágætt að vera meðvitaður fyrstu dagana um að ný smit finnast ekki alltaf strax. Ekki byrja á því að heimsækja ömmu og afa eða aðra sem eru í áhættuhópi. Þarna er tilvalið að taka fyrstu heimsóknina með glugga á milli ef allir eru orðnir spenntir eða taka upp símann og hringja.
Veislur
Flest erum við spennt að hitta fólk eftir samkomutakmarkanir í vetur og vor. Þegar þessi grein er skrifuð er enn í lagi að halda boð og hitta fólk ef við höfum varann á. Sem gestgjafar berum við ábyrgð á að hægt sé að passa upp á smitvarnir
- Um leið og við bjóðum fólk velkomið getum við sagt frá hvar er hægt að þvo sér um hendur og hvar sprittbrúsar eru. Göngum á undan með góðu fordæmi og heilsum án snertingar.
- Tryggjum að fólk geti þvegið sér um hendur áður en veitingar eru bornar fram og bjóðum gjarnan upp á pappírsþurkur til að fólk þurfi ekki að nota sameiginleg handklæði.
- Látum handspritt standa frammi nálægt veitingum sem eru í boði.
- Bjóðum upp á veitingar í einingum sem fólk getur tekið án þess að nota sameiginleg áhöld eða höfum einn aðila í að skammta svo allir séu ekki að snerta kökuhnífinn eða kaffikönnuna.
- Tilvalið er að hitta fólk utandyra, þá er auðveldara að halda hæfilegri fjarlægð.
Þegar áfengi er haft um hönd losnar um hömlur og við verðum kærulausari. Þegar við veitum áfengi í heimahúsum þurfum við að hafa það í huga. Verum meðvituð um smithættu þegar farið er á vínveitingahús, þar sem geta verið þrengsli og aðrir gestir sem eru kærulausir.
Þjónusta heilsugæslunnar
Ef þú ert með einhver einkenni sem geta bent til sýkingar getur þú leitað til heilsugæslustöðvarinnar þinnar til að fá sýnatöku. Mikilvægt er að koma ekki heilsugæslustöðina heldur hringja á undan sér. Sýnataka fer ennþá þannig fram að fólk kemur að heilsugæslustöðinni á bíl, starfsmaður kemur út og tekur sýni í gegnum bílglugga.
Ef þú ert að sækja aðra þjónustu á heilsugæslustöðvar þarf alltaf að hringja á undan sér ef einhver einkenni um kvef eða sýkingu eru til staðar. Þannig verndum við þessa mikilvægu þjónustu.
Í netspjalli á heilsuvera.is veita hjúkrunarfræðingar ráðgjöf.
Við erum búin að sýna að við getum þetta, nú þarf bara úthald.
Höfundur er Margrét Héðinsdóttir hjúkrunarfræðingur, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu