Skráning persónuupplýsinga er nauðsynleg til að hægt sé að veita þá heilbrigðisþjónustu sem ber að gera samkvæmt lögum og vegna reksturs stofnunarinnar.
3.1. Persónuupplýsingar um þig eru unnar á grundvelli lögmætra heimilda
Helstu heimildir til vinnslu persónuupplýsinga um þig eru:
- Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007
- Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009
- Lög um bókhald nr, 145/1994
- Á grundvelli samnings. Það á til að mynda við þegar um er að ræða vinnslu upplýsinga um birgja og aðra viðskiptavini stofnunarinnar.
- Í öryggisskyni og til að gæta eigna stofnunarinnar og annarra verðmæta sem þar eru.
- Á grundvelli nauðsynjar vegna ákvarðanatöku sem fellur undir stjórnsýslu stofnunarinnar.
- Í þágu almannahagsmuna en hér undir fellur vinnsla upplýsinga sem nýttar eru í rannsókna- og tölfræðiskyni.
- Í einstaka tilvikum á þeim grundvelli að einstaklingurinn sjálfur hefur samþykkt vinnsluna. Hér má sem dæmi nefna opinberar myndbirtingar af einstaklingum.
3.2. Hver er tilgangur þess að HH vinnur persónuupplýsingar um þig?
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að unnar eru persónuupplýsingar um þig innan HH. Tilgangurinn fer eftir því hvert samband þitt við stofnunina er. Samband einstaklinga við stofnunina getur verið mismunandi og hér verður stuttlega fjallað um tilgang vinnslu persónuupplýsinga eftirtaldra aðila:
- Skjólstæðinga
- Umsækjenda um störf
- Nema í heilbrigðisgreinum
- Aðstandenda
- Viðskiptavina
3.2.1 Tilgangur vinnslu upplýsinga um skjólstæðinga
Í samræmi við lög um sjúkraskrár er haldin sjúkraskrá um þá einstaklinga sem leita til heilbrigðisstarfsmanna innan HH, þar eru skráðar upplýsingar um heilsu þeirra, meðferð sem þeir þurfa og meðferð sem þeir hafa fengið. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar svo hægt sé að veita skjólstæðingum bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu.
Tilgangur með skráningu upplýsinga um skjólstæðinga er að skipuleggja, stjórna og veita heilbrigðisþjónustu. Hlutverk sjúkraskrár er eftirfarandi:
- Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna meðferð skjólstæðings hafi nákvæmar og uppfærðar upplýsingar til að geta metið heilbrigðisástand hans og veitt þá meðferð sem þörf er á.
- Viðeigandi upplýsingar eru til reiðu ef skjólstæðingur þarf að leita til annarra lækna, hefur fengið tilvísun til sérfræðilæknis eða þurft á einhverri heilbrigðisþjónustu að halda hjá öðrum heilbrigðisstofnunum en HH.
- Hægt sé að fylgjast með gæðum þeirrar þjónustu sem skjólstæðingur hefur fengið og bera þau saman við gæðamælikvarða innanlands sem og utan.
- Unnt sé að rannsaka á skilvirkan hátt hugsanlegar spurningar eða áhyggjur sem kunna að koma fram hjá skjólstæðingi eftir meðferð á HH.
Tilgangur með vinnslu persónuupplýsinga um skjólstæðing getur einnig verið:
- Eftirlit með heilsufari almennings.
- Að tryggja að heilbrigðisþjónustan sem við veitum uppfylli þarfir skjólstæðinga okkar í dag sem og til framtíðar.
- Tölfræðivinnsla um starfsemi og rekstur HH.
- Menntun og þjálfun nemenda á heilbrigðissviði.
- Vísindarannsóknir, þróun og nýsköpun.
- Útreikningur/mat á fjármögnunarþörf HH.
- Endurskoðun á rekstri og þjónustu.
- Greiningar á kvörtunum, lagalegum kröfum og atvikum.
Ef upplýsingar um þig eru notaðar í ofangreindum tilgangi eru upplýsingarnar í flestum tilvikum gerðar ópersónugreinanlegar. Þá er ekki hægt að rekja upplýsingarnar til skjólstæðings, hvorki með beinum né óbeinum hætti. Þetta er gert til að gæta friðhelgi einkalífs og til að virða trúnað við skjólstæðinga. Þegar upplýsingar hafa verið gerðar ópersónugreinanlegar teljast þær ekki lengur til persónuupplýsinga.
3.2.2. Tilgangur vinnslu upplýsinga um umsækjendur um störf
Ef þú sækir um starf hjá HH verða innsend gögn frá þér eingöngu notuð við vinnslu starfsumsóknarinnar eða til að uppfylla lagaskyldu stofnunarinnar ef svo ber við. HH ber ábyrgð á öllum gögnum sem umsækjandi lætur af hendi í ráðningarferlinu nema annað sé tekið fram.
Persónuupplýsingum um umsækjendur er ekki safnað umfram það sem nauðsynlegt er til að uppfylla tilgang HH með auglýsingu starfs. Persónuupplýsingar um umsækjendur eru notaðar til þess:
- Að hægt sé að hafa samband við umsækjanda og vinna frekar með umsókn hans.
- Að meta hæfi umsækjanda í auglýst starf.
3.2.3. Tilgangur vinnslu upplýsinga um starfsnema
Ef þú ert starfsnemi hjá stofnunni þá eru skráðar persónuupplýsingar um þig í þeim tilgangi að halda utan um og skipuleggja nám innan stofnunarinnar.
3.2.4. Tilgangur vinnslu upplýsinga um aðstandendur skjólstæðinga
Ef skjólstæðingur tilgreinir þig sem hans nánasta aðstandanda eru skráðar upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við þig í sjúkraskrá skjólstæðings.
3.2.5. Tilgangur vinnslu upplýsinga um viðskiptavini og birgja
Ef þú ert viðskiptavinur eða birgir HH eru skráðar persónuupplýsingar um þig í rekstrar- og bókhaldslegum tilgangi.