Þetta skjal inniheldur upplýsingaöryggisstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem er hluti af skjalfestu stjórnkerfi upplýsingaöryggis HH (ISMS). Upplýsingaöryggisstefnan er samþykkt af forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis en framfylgni hennar er á ábyrgð allra starfsmanna. Í skjalfestu stjórnkerfi upplýsingaöryggis HH er nánari skilgreining á umfangi og aðferðafræði stjórnkerfisins, þ.m.t. tilvísun til skjala og handbóka sem styðja upplýsingaöryggisstefnu HH, auk yfirlits yfir skiptingu ábyrgðar eftir einstökum verklagsreglum sem HH notar og yfirlýsingu yfir markmið og leiðir.
Upplýsingaöryggisstefna HH
Það er ásetningur forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að mikilvægar upplýsingar og upplýsingakerfi HH og viðskiptavina þess verði varin og öryggi tryggt á viðeigandi hátt, í samræmi við verðmæti þeirra og þær ógnanir og varnarleysi sem til staðar eru hverju sinni.
Öryggið felst í leynd, réttleika og tiltækileika.
- Leynd - Upplýsingar eru aðeins aðgengilegar þeim sem hafa aðgangsheimild.
- Réttleika - Gæði upplýsinga eru tryggð, gögn eru rétt og ekkert vantar.
- Tiltækileiki - Gott aðgengi að gögnum er tryggt fyrir þá sem hafa til þess réttindi.
Mikilvægi upplýsingaöryggis fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ótvírætt enda byggir starfsemin á að veita íbúum höfuðborgarsvæðisins samfellda og alhliða heilsugæsluþjónustu. Markmiðið með upplýsingaöryggisstefnu er því að koma á stjórnkerfi upplýsingaöryggis sem hindrar óleyfilegan aðgang, yfirfærslur, breytingar, skemmdir (viljandi eða óviljandi) og stuld á upplýsingum eða búnaði.
Upplýsingaöryggisstefnan er byggð á alþjóðlega öryggisstaðlinum ÍST ISO/IEC 27001:2005 (Information technology - Security techniques - Information Security Management System – Requirements).
Upplýsingaöryggisstefnunni er ætlað að tryggja að farið sé að lögum, þ.m.t. lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Umfang
Upplýsingaöryggisstefnan nær til innri starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auk allrar vinnslu og þjónustu sem Heilsugæslan veitir viðskiptavinum sínum í þeim tilvikum þar sem HH ber fulla ábyrgð og starfsemin, vinnslan og þjónustan fer fram í húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ábyrgð
Öryggisstjóri upplýsingamála Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur það hlutverk að annast framkvæmd og viðhald stjórnkerfis upplýsingaöryggis HH. Hann sér einnig til þess að farið sé að settum reglum og stöðlum sem styðja upplýsingaöryggisstefnuna og tryggir að starfsfólk hljóti viðeigandi fræðslu.
Nefnd upplýsingaöryggismála Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt öryggisstjóra sér um heildaráætlun og samhæfni öryggisverkefna hjá HH.
Allir starfsmenn eru ábyrgir fyrir því að fara eftir upplýsingaöryggisstefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og öðrum þeim skjölum og handbókum sem styðja stefnuna og eru hluti af stjórnkerfi upplýsingaöryggis hjá HH. Öll öryggisbrot og/eða –veikleika ber að tilkynna til öryggisstjóra sem gætir nafnleyndar þeirra sem tilkynna brot/veikleika sé þess óskað.
Samstarfsaðilar, verktakar og birgjar bera ábyrgð á að fylgt sé samningsbundnum vinnuferlum sem eiga að tryggja framkvæmd stefnunnar.
Öryggisbrot
Áhersla er lögð á að fylgja settum verklagsreglum og vinnulýsingum. Hvers konar brot á öryggisreglum verða tekin alvarlega. Öll brot verða rannsökuð sérstaklega og geta haft í för með sér refsingar og/eða málaferli.
Dreifing, endurskoðun og útgáfa
Öryggisstefnan skal endurskoðuð reglulega og vera aðgengileg fyrir alla starfsmenn og samstarfsaðila eftir því sem við á.
Samþykkt af forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 7. maí 2008.
Endurskoðað 15. september 2015.
Svanhvít Jakobsdóttir