Heilsugæslan Garðabæ hefur opnað á Garðatorgi á ný

Mynd af frétt Heilsugæslan Garðabæ hefur opnað á Garðatorgi á ný
15.05.2024
Heilsugæslan Garðabæ hefur opnað aftur í húsnæði stöðvarinnar á Garðatorgi. Stöðin opnaði aftur fimmtudaginn 16. maí eftir umfangsmiklar lagfæringar á húsnæðinu. Talsverðar skemmdir urðu á húsnæði stöðvarinnar þegar eldur kom upp í aðliggjandi húsnæði í mars.

„Við erum öll spennt að komast aftur í okkar húsnæði og hlökkum til að sinna skjólstæðingum í þeirra heimabyggð,“ segir Ásmundur Jónasson, svæðisstjóri Heilsugæslunnar Garðabæ. 

Stöðin var flutt tímabundið í húsnæði í Þönglabakka 1 í Mjóddinni eftir brunann og starfaði þar í um tvo mánuði. Sálfræðingar stöðvarinnar verða áfram staðsettir í Þönglabakkanum eitthvað lengur þar sem aðstaða sem þeir hafa haft á Garðatorgi er ekki tilbúin.

Talsverðar umbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu á Garðatorgi samhliða nauðsynlegum viðgerðum. Þá þurfi að endurnýja ýmis húsgögn, tölvur og annan búnað stöðvarinnar þar sem reykur barst um allt húsnæðið.