Auðvelt er að finna skýrar leiðbeiningar um hvernig best er að bregðast við veikindum á þekkingarvefnum Heilsuveru. Þar er hægt að leita eftir einkennum eða sjúkdómum og fá leiðbeiningar um hvernig best er að bregðast við.
Á Heilsuveru má einnig finna leiðir til að fá ráðgjöf vegna bráðra veikinda. Þar má nota netspjallið á vefnum eða hringja í síma 1700. Þar svarar starfsfólk Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og veitir ráðgjöf. Svarað er í síma 1700 allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Netspjalli er svarað alla daga milli 8 og 22.
Netspjallið og 1700 síminn eru ætluð þeim sem þurfa aðstoð eða ráðgjöf vegna veikinda.
- Fólki í neyð er bent á að hringja í síma 112.
- Tímabókanir hjá heilsugæslu fara fram hjá viðkomandi heilsugæslustöð.
- Afgreiðsla vottorða fer fram í gegnum heilsugæslustöð viðkomandi.
- Endurnýjun lyfseðla fer fram í lyfjasíma heilsugæslustöðvar og í gegnum Mínar síður á Heilsuveru.
Þekkingarvefnum Heilsuveru er ætlað að hjálpa fólki að leita sér auðskiljanlegra upplýsinga um sjúkdóma og einkenni þeirra. Allt efni er unnið af fagfólki og lögð mikil áhersla á að allir geti nýtt sér efnið.
Á Heilsuveru er einnig hægt að opna þjónustuvefsjá til að finna næstu heilsugæslustöð hvar sem er á landinu. Þekkingarvefur Heilsuveru er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embættis landlæknis og Landspítalans.