Tilgangur þessara reglna er að stuðla að markvissri rannsóknastefnu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) þar sem áhersla er lögð á rannsóknir sem efla heilsugæsluna og þekkingargrunn hennar.
- Senda skal umsókn fyrst til VSN – Vísindasiðanefndar
- Ef VSN gefur leyfi skal senda samþykkta umsókn og leyfið á visindanefnd@heilsugaeslan.is
- Ábyrgðarmaður rannsóknar ber ábyrgð á að sótt sé um leyfi fyrir rannsókninni á þeim stofnunum sem við á. Óheimilt er að hefja framkvæmd rannsóknar fyrr en þau liggja fyrir.
- Vís-HH er umsagnaraðili og getur hafnað rannsóknum þrátt fyrir að VSN – Vísindasiðanefnd hafi samþykkt umsókn.
- Vís-HH metur siðferðileg álitamál sem hluta af heildarmati.
- Almennt er gerð sú krafa af hálfu HH að einn rannsakenda eða fleiri séu starfsmenn heilsugæslunnar og með háskólamenntun við hæfi.
- Hlutverk rannsakenda frá HH er að vera tengiliður innan HH og við Vís-HH.
- Bera ábyrgð á framkvæmd rannsóknar innan HH og að unnið sé skv. leyfi rannsóknar.
- Heimili nefndin rannsókn skilar hún áliti sínu til framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar HH, sem leggja mat á rekstrarlegar forsendur fyrir hverri rannsókn og afgreiða umsóknir aftur til Vís-HH til endanlegrar afgreiðslu.
- Vís-HH býr til mál um hverja samþykkta rannsókn.
- Gagnavinnsluaðili setur fótspor í Sögu um hverja gagnarannsókn.
- Ef óskað er eftir gögnum úr sjúkraskrám er slíkur aðgangur eingöngu heimilaður að fengnu samþykki vörslumanns sjúkraskrár.
- Þegar niðurstaða framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar liggur fyrir svarar Vís-HH umsækjanda.
- Vís-HH heldur skrá um allar rannsóknir sem eru framkvæmdar á vettvangi HH.
Ferli rannsóknabeiðna
Stjórnendur HH leitast við að varðveita sjálfstæði einstakra starfsstöðva innan sinna vébanda og styðja við frumkvæði og áhuga einstaklinga innan heilsugæslunnar. Stjórnendur starfsstöðva HH eru því í lykilhlutverkum varðandi skipulag og umfang rannsókna og þróunarverkefna hver á sinni stöð. Sama á við um stjórnendur annarra starfsstöðva ef um samstarfsverkefni er að ræða. Ferli umsókna fer því eftir umfangi verkefnisins sem hér segir.
- Allar umsóknir um vísindarannsóknir sem tengjast HH skulu sendar til Vís-HH til umsagnar og skráningar.
- Sé rannsókn bundin við eina heilsugæslustöð innan HH og hafi hlotið samþykki viðeigandi yfirmanna hennar þarf Vís-HH ekki að samþykkja rannsóknina. Hinsvegar þarf alltaf að tilkynna rannsóknina til Vís-HH og sækja um leyfi til VSN – Vísindasiðanefndar.
- Ef rannsókn nær til fleiri en einnar starfseiningar HH þarf hún alltaf að vera metin hjá Vís-HH.
- Ætíð skal liggja fyrir samþykki stjórnenda viðkomandi einingar áður en umsókn er samþykkt af Vís-HH og framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar.
- Mat á innsendri umsókn skal að öllu jöfnu lokið innan 6 vikna frá því að öll umbeðin gögn hafa verið send inn. Ef sýnt þykir að afgreiðsla umsóknar muni dragast lengur en þann tíma mun Vís-HH útskýra það fyrir umsækjendum með góðum fyrirvara.
- Að lokinni rannsókn skal senda staðfestingu á netfang Vís-HH visindanefnd@heilsugaeslan.is. Auk þess skal senda helstu niðurstöður rannsóknar til Vís-HH til upplýsinga. Greinar sem birtar eru í ritrýndum vísindaritum skal senda Vís-HH.
- Óheimilt er að hefja rannsókn áður en tilskilin leyfi liggja fyrir.
Kostnaður og greiðslur
Í umsókn skulu umsækjendur gera sérstaka grein fyrir fjárhagsáætlun og fjármögnun rannsóknarinnar. Þar er lögð áhersla á að gerð sé grein fyrir kostnaði, hvort sem hann er greiddur sérstaklega af rannsóknarfé, eða leggst með beinum eða óbeinum hætti á HH. HH getur gert kröfu til rannsakanda um að greiða kostnað sem hlýst af rannsókninni og lendir á þessum aðilum.
Komi sérstakar tekjur til vegna aðildar HH að rannsókn skulu þær í samræmi við hlutdeild HH í rannsókninni renna í sérstakan vísinda- og þróunarsjóð HH. Reglur um úthlutun úr sjóðnum skulu samþykktar af framkvæmdastjórn HH.
Afgreiðsla og heimildir til rannsóknastarfa
Vís-HH gefur umsóknum eftirfarandi umsögn:
- Samþykkt/mælt með.
- Samþykkt en mælt með endurmati skv. ábendingum eða athugasemdum.
- Hafnað.
Vís-HH sendir umsögn sína til framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar til samþykktar. Vís-HH svarar umsækjanda síðan með bréfi/tölvupósti.
Verði breyting á tímaáætlun rannsóknar skal umsækjandi leggja fram nýja áætlun til Vís-HH til samþykktar.
Verði mælt með rannsókn með breytingum eða athugasemdum skal Vís-HH óska eftir svarbréfi eða endurbættri áætlun innan tiltekinna tímamarka, frá dagsetningu umsagnar sinnar. Berist ekki endurbætt áætlun innan þess tíma verður litið svo á að umsækjandi hafi hætt við rannsóknina.